Tónleikaárið 2017-2018

Septettar eftir Hummel & Beethoven

Í Norðurljósum, Hörpu, 10. september 2017 – kl. 17:00

Á “Sígildum sunnudögum”, tónleikaröð Hörpu

Kaupa miða

Á fyrstu tónleikum starfsársins leikur Kammersveit Reykjavíkur septetta eftir tvö tónskáld klassíska tímabilsins, Ludwig van Beethoven og Johann Nepomuk Hummel. 

Septettinn op. 20 eftir Beethoven (1770-1827) var frumfluttur árið 1800 og varð fljótt mjög vinsæll. Hljóðfæraskipanin, klarinett, horn, fagott, fiðla, víóla, selló og kontrabassi, var nýlunda á þessum tíma. Verkið varð einnig vinsælt í ýmsum útsetningum og gerði Beethoven m.a. sína eigin útgáfu fyrir tríó. Á tónleikum Kammersveitarinnar verður verkið leikið í upprunalegri útgáfu Beethovens.
 
Johann Nepomuk Hummel (1778-1837) var vinsælt tónskáld og píanóleikari í Vínarborg. Hummel var af mörgum samtímamönnum sínum talinn jafningi Beethovens sem tónskáld, en upprisa rómantísku bylgjunnar í Evrópu varð Hummel erfið og féll hann nokkuð úr tísku undir lok ævinnar.
 
Septettinn var saminn árið 1816 og naut verkið mikillar velgengni og átti sinn þátt í að koma Hummel á kortið sem framúrskarandi kammermúsiktónskáldi. Verkið er skrifað fyrir píanó, flautu, óbó, horn, víólu, selló og kontrabassa. Hljóðfærasamsetningin var einnig nýlunda á þessum tíma, píanóparturinn er mjög viðamikill, og óvenjuleg er fjarvera fiðlunnar.

Ítalskir konsertar

Í Norðurljósum, Hörpu, 10. desember 2017 – kl. 17:00

Á „Sígildum sunnudögum,“ tónleikaröð Hörpu.

Kaupa miða

 

Jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur eru að þessu sinni eru helgaðir ítalskri barokktónlist. Einleikarar koma úr röðum sveitarinnar en einnig verður lútuleikarinn Arngeir Heiðar Hauksson sérstakur gestur. Arngeir hefur helgað sig upprunaflutningi á fornri tónlist og hefur starfað lengi í Bretlandi með hinum ýmsu tónlistarhópum.

Á tónleikunum leikur Kammersveitin hina þekktu jólakonserta Corellis og Manfredinis en auk þeirra eru á efnisskrá einleikskonsertar eftir Vivaldi og Brescianello. Arngeir Heiðar leikur einleik í lútukonserti Vivaldis en aðrir einleikarar á tónleikunum eru Una Sveinbjarnardóttir, Helga Þóra Björgvinsdóttir, Gunnhildur Daðadóttir og Laufey Jensdóttir á fiðlu, Hrafnkell Orri Egilsson á selló og Matthías Birgir Nardeau á óbó.


„Ferli“

Kammersveit Reykjavíkur og pólska strengjasveitin Elbląska Orkiestra Kameralna, sameinast undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar á lokatónleikum Myrkra músíkdaga.

Í Norðurljósum, Hörpu, 27. janúar 2018 – kl. 21:00

Kammersveit Reykjavíkur og gestir þeirra, Elbląska Orkiestra Kameralna, munu renna saman í eina sveit á þessum tónleikunum undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar hljómsveitarstjóra, sem nú stjórnar Kammersveitinni í annað sinn.

Það er vel við hæfi að á lokatónleikum Myrkra músíkdaga, tónlistarhátíðar Tónskáldafélags Íslands, verða öll tónverkin frumflutt, þrjú á heimsvísu og tvö á Íslandi. Og öll eiga þau sameiginlegt að vera eftir íslensk tónskáld.

Á efnisskrá er From My Green Karlstad, nýtt verk eftir Finn Karlsson, pantað af Kammersveit Reykjavíkur, Mosk eftir Þorkell Sigurbjörnsson f. strengi og sjávartrommu í minningu tónskáldsins sem hefði orðið áttrætt árið 2018, Dämmerung eftir Páll Ragnar Pálsson  f. strengi og sópran við ljóð Melittu Urbancic. Eistneska sópransöngkonan Tui Hirv syngur einsöng í því verki.

Una Sveinbjarnardóttir, konsertmeistari Kammersveitarinnar verður einleikari í Demeter, Fiðlukonsert eftir Oliver Kentish og hljóðfæraleikarar kammersveitanna munu skipta um hlutverk og leika verkið Ferli eftir Atla Heimi Sveinsson fyrir 10-30 ásláttarleikara í tilefni af  áttræðisafmæli tónskáldsins síðar á árinu.

Kaupa miða hér


„Aires Tropicales“

Suðræn tónlistarveisla á Sígildum sunnudegi

Í Norðurljósum, Hörpu, 27. maí 2018 – kl. 17:00

 

Á lokatónleikum starfsársins býður Kammersveit Reykjavíkur til suðrænnar tónlistarveislu.
Yfirskrift tónleikanna er Aires Tropicales og vísar bæði til eins tónverksins á efnisskránni og einnig til uppruna tónskáldanna, en þau koma frá Brasilíu, Kúbu, Uruguay, Spáni og Argentínu. Boðið er upp á hressilega tangóstemningu, spænska balletttónlist og kúbverska dansa, svo fátt eitt sé nefnt.

Efnisskrá:

Heitor Villa-Lobos Quinteto (em forma de chôros)

Paquito D’Rivera Aires Tropicales
Miguel del Aguila Tango Trio op. 7

Manuel de Falla Pantomime & Ritual Fire Dance úr El Amor Brujo

Miguel del Aguila Disagree!

Astor Piazzolla Svíta fyrir nonett í útsetningu Marcelo Costas
Imágenes 676
Romance del diablo
La muerte del ángel

Kaupa miða hér