Um okkur

e00a8126-copy

Kammersveit Reykjavíkur var stofnuð 1974 og hefur síðan haldið reglulega tónleika með kammertónlist, allt frá barokktímanum til nútímans. Markmiðið með stofnun hennar var að gefa áheyrendum kost á reglulegum tónleikum með kammertónlist og um leið að gefa hljóðfæraleikurunum tækifæri til að glíma við áhugaverð verkefni.

Óhætt er að fullyrða Kammersveitinni hafi tekist ætlunarverk sitt því hún hefur átt fastan sess í tónlistarlífi höfuðborgarinnar síðan.

Félagar í Kammersveitinni eru virkir þátttakendur í tónlistarlífi Íslendinga, margir þeirra meðlimir í Sinfóníuhljómsveit Íslands og ýmsum öðrum hljómsveitum auk þess að stunda tónlistarkennslu. Rut Ingólfsdóttir hefur lengst af verið leiðari sveitarinnar og listrænn stjórnandi. Nú hefur Una Sveinbjarnardóttir tekið við sem konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur. Kammersveit Reykjavíkur kemur fram í misstórum hópum, allt frá 3 til 40 manns, en stærð hópsins ræðst af þörfum tónverkanna hverju sinni.

Kammersveitin er kunn fyrir fjölbreytt verkefnaval og góðan flutning. Hún hefur frumflutt fjölda íslenskra og erlendra verka sem samin hafa verið fyrir hana og ennfremur staðið fyrir íslenskum frumflutningi þekkra erlendra verka. Kammersveitin hefur fengið ýmsa þekkta stjórnendur til liðs við sig. Einkum hefur hún unnið náið með Paul Zukofsky, Reinhard Goebel, Jaap Schröder, Richard Egarr og Vladimir Ashkenazy píanóleikara og stjórnanda. Auk tónleikahalds í Reykjavík og víða út um land hefur sveitin farið í fjölmörg tónleikaferðalög erlendis og komið fram á virtum tónlistarhátíðum.

Á undanförnum árum hefur Kammersveit Reykjavíkur lagt áherslu á upptöku og útgáfu íslenskra verka m.a. þeirra fjölmörgu tónverka sem íslensk tónskáld hafa samið sérstaklega fyrir hana. Þessir geisladiskar endurspegla þá listrænu samvinnu sem Kammersveitin hefur átt við helstu listamenn landsins í gegnum tíðina. Ennfremur hefur Kammersveitin gefið út geisladiska með klassískum verkum m.a. Brandenborgarkonserta Bachs en fyrir þá útgáfu hlaut Kammersveitin Íslensku tónlistarverðlaunin 2003. Kammersveit Reykjavíkur hefur tvívegis verið tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs; árið 2005 og aftur árið 2015.

Verkefnastjórn/Verkefnavalsnefnd: Áshildur Haraldsdóttir, Hrafnkell Orri Egilsson, Matthías Birgir Nardeau, Richard Korn, Rúnar Óskarsson og Una Sveinbjarnardóttir

Heiðursforseti og umsjónarmaður útgáfu: Rut Ingólfsdóttir

Meðlimir Kammersveitar Reykjavíkur starfsárið 2016-2017:
Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanó
Áshildur Haraldsdóttir, flauta
Einar Jónsson, trompett
Frank Aarnink, slagverk
Grímur Helgason, klarinett
Guðrún Hrund Harðardóttir, víóla
Gunnhildur Daðadóttir, fiðla
Helga Þóra Björgvinsdóttir, fiðla
Hrafnkell Orri Egilsson, selló
Joseph Ognibene, horn
Laufey Jensdóttir, fiðla
Matthías Birgir Nardeau, óbó
Michael Kaulartz, fagott
Pálína Árnadóttir, fiðla
Richard Korn, kontrabassi
Rúnar Óskarsson, klarinett
Sigurður Bjarki Gunnarsson, selló
Stefán Jón Bernharðsson, horn
Una Sveinbjarnardóttir, fiðla
Þórunn Ósk Marinósdóttir, víóla