Nýr geisladiskur Kammersveitar Reykjavíkur


Út er kominn geisladiskurinn Kvöldstund með Beethoven og Dvořák í flutningi Kammersveitar Reykavíkur.
Á efnisskrá disksins er Sextett fyrir tvö horn og strengjakvartett í Es-dúr op.81b eftir L. v. Beethoven og Serenaða fyrir blásara, selló og kontrabassa í d-moll op. 44 eftir A. Dvořák.

Diskurinn er gefinn út af Smekkleysu eins og flestir geisladiskarnir í 26 diska útgáfusafni Kammersveitarinnar.

Kvöldstund með Beethoven og Dvořák er, eins og aðrir diskar Kammersveitarinnar, fáanlegur í verslun Smekkleysu á Laugavegi 35 og víða á netinu s.s. á Amazon. Kammersveitin hefur undanfarið gefið út geisladiska með klassískum verkum, m.a. Brandenborgarkonserta Bachs en fyrir þá útgáfu hlaut Kammersveitin Íslensku tónlistarverðlaunin 2003.

Sextettinn er í klassískum stíl og var saminn árið 1794-5, stuttu eftir að hinn ungi Beethoven hafði flutt búferlum til Vínarborgar. Líklegt er að Beethoven hafi þekkt bestu hljóðfæraleikara síns tíma í Vínarborg miðað við erfiðleikastig Sextettsins. Hægi þátturinn gefur hornleikurunum tækifæri til að láta hljóðfærið syngja en í lokakaflanum teflir Beethoven fram veiðmannastefi í anda Mozarts sem lést aðeins fáum mánuðum áður en Beethoven kom til Vínarborgar.

Dvořák samdi Serenöðuna snemma árs 1878. Auljóst er að tónlist Mozarts og Beethovens fyrir blásara hefur haft mikil áhrif á Dvořák. En við hið þrautreynda tónlistarform bætti tónskáldið þjóðlögum frá heimalandi sínu Bóhemíu og til varð ný tegund tónlistar ekki einungis ætluð hástéttinni heldur öllum almenningi, hann gæti einnig skilið og notið tónlistarinnar.

Flytjendur Kammersveitar Reykjavíkur á diskinum eru Daði Kolbeinsson og Peter Tompkins, óbó,  Einar Jóhannesson og Rúnar Óskarsson, klarinett, Rúnar H. Vilbergsson og Darri Mikaelsson, fagott, Brjánn Ingason, kontrafagott, Joseph Ognibene, Emil Friðfinnsson og Þorkell Jóelsson, horn, Rut Ingólfsdóttir og Júlíana Elín Kjartansdóttir, fiðla, Sarah Buckley, víóla, Inga Rós Ingólfsdóttir og Sigurður Bjarki Gunnarsson, selló og Richard Korn, kontrabassi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.