Tónleikaárið 2018-2019
Sagan af dátanum
Í Norðurljósum, Hörpu, 23. september 2018 – kl. 16:00
Á “Sígildum sunnudögum”, tónleikaröð Hörpu
[button type=”default” size=”small” url=”https://www.tix.is/is/harpa/buyingflow/tickets/6386/”]Kaupa miða[/button]
Á fyrstu tónleikum starfsársins leikur Kammersveit Reykjavíkur Söguna af dátanum eftir Igor Stravinsky. Sögumaður er Jóhann Sigurðarson og stjórnandi er Bjarni Frímann Bjarnason. Verkið var frumflutt fyrir 100 árum síðan, eða þann 28. september 1918 í Lausanne í Sviss. Verkið samdi Stravinsky við texta eftir C.F. Ramuz, sem byggði söguna á gamalli rússneskri þjóðsögu en íslenska þýðingu gerði Þorsteinn Valdimarsson. Hermaðurinn Jósef er á leið heim í stutt frí. Á leiðinni sest hann niður til að leika á fiðluna sína þegar Kölski, í gervi gamals manns, býður honum uppá skipti; Kölski fær fiðluna í skiptum fyrir bók sem á að færa þeim sem kann með að fara, óendanleg auðævi. Jósef gengur að samningnum en kemst fljótt að því að auðurinn færir honum ekki hamingju. Hann losar sig við bókina og kaupir fiðluna aftur, en viðskiptum hans og Kölska er þó langt frá því að vera lokið. Sagan er áminning um að hamingjan verður ekki keypt þrátt fyrir öll heimsins auðævi, og á jafn vel við nú og fyrir 100 árum þegar verkið var frumflutt.
Bach, Bach og Telemann
Faðir sonur og guðfaðir
Jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur Í Norðurljósum, Hörpu, 2. desember 2018 – kl. 16:00
Á „Sígildum sunnudögum,“ tónleikaröð Hörpu.
[button type=”default” size=”small” url=”https://www.tix.is/is/harpa/buyingflow/tickets/6465/”]Kaupa miða[/button]
Svo árum skiptir hefur Kammersveit Reykjavíkur glatt tónleikagesti með jólatónleikum sínum. Eftir tónleika til fjölda ára í Áskirkju hefur sveitin nú flutt jólatónleika sína í Hörpu og eru þeir orðnir ómissandi hluti fjölbreyttrar tónleikaflóru hússins á aðventunni.
Tónleikarnir í ár eru sérlega glæsilegir. Sveitin mun flytja fjölbreytt verk eftir þrjá meistara barokktímans. Þá J.S Bach, C.P.E Bach og G.Ph Telemann. Sveitin fær til sín góða gesti, þau Inês d’Avena blokkflautuleikara og Claudio Ribeiro semballeikara, en þau eru bæði búsett í Hollandi og starfa við flutning barokktónlistar. Að auki leika Dai Yuan fagottleikari og Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari, meðlimur Kammersveitarinnar, einleik á tónleikunum.
Á efniskránni má meðal annars finna tríósónötur, konserta og hina rómuðu hljómsveitarsvítu J.S Bachs nr. 1.
Lokatónleikar Myrkra músíkdaga
Í Kaldalóni, Hörpu, 2. febrúar 2019 – kl. 21:00
Kammersveitin slær lokahljóm Myrka músíkdaga að vanda. Á efnisskrá eru verk eftir góða vini Kammersveitarinnar eins og Huga Guðmundsson, Önnu Þorvaldsdóttur og Steingrím Rohloff, en einnig mun sveitin flytja í fyrsta sinn verk eftir Helga Rafn Ingvarsson og nýliðann Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur.
Efnisskrá:
Hugi Guðmundsson: Eq. IV: Windbells (2005)
Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir: að elska er að sökkva (2018), frumflutningur
Helgi Rafn Ingvarsson: Vefur / Loom (2018), frumflutningur
Anna Þorvaldsdóttir: Fields (2016), frumflutningur á Íslandi
Steingrímur Rohloff: The Sinus Experience (2007)
Lítið eitt um verkin:
–Eq. IV: Windbells var pantað af Caput fyrir heimssýninguna í Japan 2005. Verkið var valið fyrir Íslands hönd á Rostrum tónskáldaþingið í Lisabon 2006 og hlaut þar viðurkenningu í báðum flokkum keppninnar.
–að elska er að sökkva var skrifað fyrir Kammersveit Reykjavíkur haustið 2018. Titill verksins er fenginn úr ljóði X. úr ljóðabókinni Vistarverur eftir Hauk Ingvarsson en brot úr því kemur fyrir í verkinu ásamt upphafi ljóðsins VI. Verkið er skrifað fyrir flautu, klarinett, fiðlu, kontrabassa og uppmagnaðan kaktus.
–Vefur er impressjónísk tónsmíði. Kona situr við vefstól og vefur klæði.
–Fields var pantað af Villa Musica Rheinland-Pfalz stofnuninni fyrir tónlistarhópinn Bang on a Can All-Stars. Það var frumflutt í Frankfurter Hof salnum í Mainz 2016.
–The Sinus Experience var skrifað fyrir tónlistarhópinn Caput árið 2006.
Flytjendur á tónleikunum:
Áshildur Haraldsdóttir – flauta/bassaflauta, Rúnar Óskarsson – klarinett/bassaklarinett, Una Sveinbjarnardóttir – fiðla, Hrafnkell Orri Egilsson – selló, Richard Korn – kontrabassi, Guðmundur Pétursson – gítar, Frank Aarnink – slagverk, Anna Guðný Guðmundsdóttir – píanó, Bjarni Frímann Bjarnason – stjórnandi.
Miðaverð 3500kr
Tilboð á tix.is til 1. janúar. Hátíðarpassi sem gildir á alla viðburði Myrkra músíkdaga á 10.000kr
Viðburðurinn á Facebook
Myrkir músíkdagar
Kammersveitin flytur kammersinfóníur
Í Norðurljósum, Hörpu, 17. mars 2019 – kl. 16:00
Á „Sígildum sunnudögum,“ tónleikaröð Hörpu.
Kammersinfóníur á tónleikum Kammersveitar Reykjavíkur. Frumflutningur á Íslandi. Petri Sakari stjórnar.
Kammersveit Reykjavíkur heldur síðustu tónleika þessa starfsár sunnudaginn 17. mars í Norðurljósum Hörpu. Kammersveitin ræðst ekki á garðinn sem hann er lægstur að þessu sinni en á tónleikunum flytur hún tvö af stórvirkjum kammertónbókmenntanna, kammersinfóníur eftir Arnold Schönberg og John Adams. Stjórnandi á tónleikunum er finnski hljómsveitarstjórinn Petri Sakari.
Hinn austurríski Arnold Schönberg lauk við Kammersinfóníu nr. 1 í E-dúr árið 1906 og var hún frumflutt ári síðar. Verkið hlaut þó fyrst verulega athygli þegar það var flutt í annað sinn á frægum tónleikum í Vínarborg árið 1913, hinum svokallaða „Skandalkonzert”. Á tónleikunum voru flutt verk eftir tónskáld af Vínarskólanum síðari svokallaða. Hin tilraunakennda og nýstárlega tónlist fór fyrir brjóstið á áheyrendum, og tónleikarnir leystust upp í óeirðir. Kammersinfónían er mikilvægur áfangi á tónsmíðaferli Schönbergs, sem hann lýsir svo: „Þarna fann ég leið fyrir okkur, ung tónskáld, til að rata úr þeim vanda sem nýjungar Wagners á sviði hljómfræði forms, hljómsetningar og tilfinningatjáningar hafa skapað okkur”. Kammersveitin frumflutti verkið á Íslandi árið 1983 og flytur það nú í annað sinn.
Tæpum 90 árum síðar samdi bandaríska tónskáldið John Adams kammersinfóníu sína sem innblásin er af verki Schönbergs, og er hún nú flutt í fyrsta sinn á Íslandi. Adams sagði svo frá sköpunarferlinu: „Ég sat í vinnustofu minni og lá yfir nótunum að kammersinfóníu Schönbergs. Ég varð þess var að sjö ára gamall sonur minn, Sam, var í næsta herbergi að horfa á gamlar og góðar teiknimyndir frá 6. áratugnum. Tónlistin í teiknimyndunum, í senn ofvirk, áleitin og iðandi af hreyfingu, blandaðist í huga mér við tónlist Schönberg, sem sjálf var ofvirk, iðandi og ekki lítið áleitin. Skyndilega áttaði ég mig á því að þessar tvær hefðir eiga margt sameiginlegt.“ Um formið segir hann: „Lengi vel hafði tónlist mín verið fyrir stærri hljóðfærahópa: með breiðum pensli á stóran striga. Aðallega sinfónísk tónlist eða óperur. Kammertónlist er frá náttúrunnar hendi pólyfónísk og felur í sér ákveðinn jöfnuð í hlutverkaskipan, og mér hefur alltaf reynst erfitt að semja hana. En sinfónía Schönbergs var ákveðinn lykill að þeim dyrum: form sem sameinar annars vegar þyngd og vægi sinfóníunnar og hins vegar gagnsæi og hreyfanleika kammertónlistarinnar.“
Finnska hljómsveitarstjórann Petri Sakari þarf vart að kynna, en hann stjórnar nú Kammersveit Reykjavíkur í fjórða sinn. Petri var aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil, en auk þess stjórnað margoft sýningum hjá Íslensku óperunni. Síðast stjórnaði Petri Sakari tónleikum Kammersveitar Reykjavíkur á Listahátíð árið 2013 sem haldnir voru í tilefni af aldarafmæli pólska tónskáldsins Witold Lutoslawski og hlutu þeir mikið lof gagnrýnenda.