Um okkur
Kammersveit Reykjavíkur var stofnuð árið 1974 af Rut Ingólfsdóttur ásamt 12 hljóðfæraleikurum, sem flestir voru nýkomnir heim frá námi erlendis og störfuðu í Sinfóníuhljómsveit Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík. Markmiðið með stofnun hennar var að gefa áheyrendum kost á reglulegum tónleikum með kammertónlist, allt frá barokktímanum til nútímans, og um leið að gefa hljóðfæraleikurunum tækifæri til að glíma við áhugaverð verkefni. Óhætt er að fullyrða Kammersveitin hafi tekist ætlunarverk sitt því hún hefur átt fastan sess í tónlistarlífi höfuðborgarinnar síðan.
Kammersveit Reykjavíkur kemur fram í misstórum hópum, allt frá 3 til 35 manns, en stærð hópsins ræðst af þörfum tónverkanna hverju sinni. Meðlimir Kammersveitarinnar eru virkir þátttakendur í tónlistarlífi Íslendinga enda meðlimir í Sinfóníuhljómsveit Íslands og ýmsum öðrum hljómsveitum auk þess að stunda tónlistarkennslu. Enn hafa þeir að leiðarljósi það takmark að auðga íslenskt tónlistarlíf með því að leyfa áheyrendum að hlýða á fyrsta flokks flutning tónbókmennta frá ýmsum tímabilum tónlistarsögunnar. Markmið stofnenda Kammersveitarinnar eru því jafn mikið í gildi í dag og þau voru fyrir þremur áratugum.
Kammersveitin er kunn fyrir fjölbreytt verkefnaval og góðan flutning. Hún hefur frumflutt fjölda íslenskra og erlendra verka sem samin hafa verið fyrir hana og ennfremur staðið fyrir íslenskum frumflutningi þekkra erlendra verka, þ.á.m. Pierrot Lunaire, Serenöðu, Kammersinfóníu nr. 1 og fleiri verka eftir Arnold Schönberg, Kvartetts um endalok tímans og Des Canyons aux Étoiles eftir Olivier Messiaen, Façade eftir William Walton, Fratres, Te Deum og fleiri verk Arvo Pärts.
Kammersveitin hefur fengið ýmsa þekkta stjórnendur til liðs við sig. Einkum hefur hún unnið náið með Paul Zukofsky, Reinhard Goebel, Jaap Schröder og Vladimir Ashkenazy píanóleikara og stjórnanda. Starfsemi Kammersveitar Reykjavíkur rúmar jafnt tónleikahald innanlands sem utan og einnig upptökur fyrir útvarp og sjónvarp. Hún kemur reglulega fram á Listahátíð í Reykjavík og hefur leikið á fjölmörgum tónlistarhátíðum erlendis. Kammersveit Reykjavíkur hefur komið fram fyrir Íslands hönd við fjölmörg tækifæri erlendis, t.d. á heimssýningunum í Lissabon 1998 og í Hannover árið 2000, sem og við opnun sendiráðs Íslands í Tokyo. Í maí 2003 fór Kammersveitin í tónleikaferð til Belgíu og Rússlands í boði Vladimirs Ashkenazys, þar sem hann kom fram bæði sem einleikari og stjórnandi. Í október 2004 flutti Kammersveitin efnisskrá með íslenskum verkum á Íslenskum menningardögum í París, Islande de glace et de feu.
Kammersveitin hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2004 fyrir geisladiska sína með Brandenborgarkonsertum Johanns Sebastians Bachs, þar sem Jaap Schröder leiddi hljómsveitina.
Á undanförnum árum hefur Kammersveit Reykjavíkur lagt áherslu á upptöku og útgáfu þeirra fjölmörgu tónverka sem íslensk tónskáld hafa samið sérstaklega fyrir hana. Ætlunin er að geisladiskarnir endurspegli þá listrænu samvinnu sem Kammersveitin hefur átt við helstu listamenn landsins í gegnum tíðina.
Í árslok 2009 tók Rut Ingólfsdóttir þá ákvörðun að stíga til hliðar sem konsertmeistari og framkvæmdarstjóri Kammersveitarinnar og láta stjórnina í hendur nýrri kynslóð tónlistarfólks. Una Sveinbjarnardóttir er nú konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur.
Heiðursforseti: Rut Ingólfsdóttir
Umsjónarmaður útgáfu: Rut Ingólfsdóttir
Verkefnastjórn/Verkefnavalsnefnd: Áshildur Haraldsdóttir, Hrafnkell Orri Egilsson, Matthías Birgir Nardeau, Richard Korn, Rúnar Óskarssonog Una Sveinbjarnardóttir